Fagmennska - nærgætni - gleði.

 


Ökunámið.

Markmið góðs ökunáms er ekki síst að efla ábyrgðartilfinningu ökunemans sem vegfaranda og gera hann færan um að stjórna ökutæki af sem mestu öryggi og öðrum til sem minnstra óþæginda. Við þurfum sífellt að læra að bregðast við nýjum aðstæðum, engu síður en þeir sem ferðast með öðrum hætti. Ökunámið leggur grunninn að stöðugu námi í umferð og því er mikilvægt að til þess sé vandað. 1. febrúar 2000 tók gildi námskrá fyrir almenn ökuréttindi þar sem lýst er í smáu sem stóru hvað neminn þarf að læra til að hann geti fengið ökuskírteini.

Hvenær get ég byrjað og hvert leita ég?
Ökunám getur hafist þegar þú hefur náð 16 ára aldri. Skynsamlegt er að ætla sér góðan tíma í ökunámið því að tímaskortur og akstur fara illa saman. Hvenær ökunám er hafið fer eftir ýmsum þáttum svo sem árstíð, búsetu, efnahag, persónulegum aðstæðum eða löngun viðkomandi til að aka. Fyrsta skrefið í ökunáminu er að ræða við ökukennara. Þú velur þér ökukennara. Val ökukennara er einn mikilvægasti liðurinn í ökunáminu. Veldu þér ökukennara sem þú finnur að þú átt auðvelt með að læra af.

Hvað á ég að spyrja ökukennarann um?
Spurðu ökukennarann hvernig kennslunni sé háttað, hvenær hann kenni, hvers konar kennsluáætlun hann fylgi og hvaða bækur og námsgögn séu notuð, í hvaða ökuskóla hann vilji að þú farir á bóklegt námskeið, hvað kennslutíminn kosti og hvaða greiðslukjör séu í boði. Spurðu ökukennarann EKKI hvað þú komist af með fáa tíma - hann getur ekki svarað því fyrr en hann er byrjaður að kenna þér. Spurðu hann heldur hvort hann sé tilbúinn til þess að aðstoða þig og foreldra þína og aðra ættingja til að þjálfa þig til viðbótar því sem hann kennir.

Hvað er ökunámsbók?
Ökunámsbók er samskiptabók og upplýsingabók allra þeirra er koma að ökunámi. Við upphaf kennslu skal ökukennari afhenda ökunema ökunámsbók. Hún skal sýna feril ökunáms frá upphafi þar til ökupróf er staðið.
Bókin er eign nemandans og hann geymir hana á meðan á ökunámi stendur. Hún skal höfð með í alla kennslutíma, bóklega og verklega, hana skal leggja inn til sýslumanns ef sótt er um æfingaleyfi og svo að sjálfsögðu við komu í próf.
Færðar eru í ökunámsbók þær upplýsingar um kennslustundir sem nemi tekur í ökuskóla og hjá ökukennara, svo og upplýsingar um þann tíma sem varið er til æfingaaksturs með leiðbeinanda.
Að afloknum kennslustundum í ökuskóla og hjá ökukennara skal skólinn / kennarinn þannig skrá tímana í bók nemandans.
Æfingaleyfi er skráð í ökunámsbók.
Prófdómarar votta í ökunámsbók staðið skriflegt og verklegt ökupróf.

Hvað þarf ég að taka marga ökutíma?
Afar mismunandi er hversu marga ökutíma nemandinn þarf. Algengur tímafjöldi er á bilinu 15-18 tímar. Námskráin segir að tímafjöldinn eigi að vera að lágmarki 15. Við leggjum áherslu á að gott ökunám er fyrst og fremst ódýr fjárfesting einstaklings í eigin umferðaröryggi og því má ekki fórna fyrir ómerkilegt stolt.

Hvað er gert á bóklegum námskeiðum eða í ökuskólum?
Á námskeiðum er farið yfir grundvallaratriði er snerta skilning á umferðinni, helstu umferðarreglur, umferðarmerki, umferðarsálfræði, verkefni unnin o.fl. Einnig er aðstoðað við undirbúning ökuprófs. Lengd námskeiða er 24 kennslustundir og er þeim gjarnan skipt í fyrri hluta (Ö1) og seinni hluta (Ö2). Ætlast er til að fyrri hlutinn sé tekinn fyrir æfingaaksturinn með leiðbeinanda og sá seinni áður en farið er í skriflega prófið. (Ö3) Er námskeið í hálkuakstri og förvörnum.

Hvað er leiðbeinandaþjálfun eða æfingaakstur?
Leiðbeinandaþjálfun er í raun viðbótarþjálfun umfram þá kennslu sem þú færð hjá ökukennaranum. Ef þú ætlar að notfæra þér þennan valkost undirbýr ökukennari þig fyrir æfingaaksturinn. Þú þarft að sækja fyrri hluta bóklegs námskeiðs og fá nauðsynlegan undirbúning í akstri hjá ökukennaranum. Hann ákveður síðan hvenær þú og leiðbeinandinn getið hafið æfingaaksturinn. Ökukennarinn mun síðan fylgjast með hvernig gengur hjá ykkur m.a. með því að taka einn og einn tíma á þjálfunartímabilinu. Eftir æfingaaksturinn tekur ökukennarinn aftur við og undirbýr ökunemann fyrir ökuprófið.
Umsókn um æfingaleyfi er í ökunámsbók (B réttindi á bls. 7). Ökukennari þarf að staðfesta að hann telji ökunema tilbúinn í æfingaakstur. Tryggingafélag þarf að staðfesta að vátrygging sé í gildi vegna æfingaaksturs.
Umsókn er á Höfuðborgarsvæðinu lögð inn hjá

Sýslumanninum í Kópavogi (Dalvegi 18, 201 Kópavogi. Afgreiðsla opin kl. 09:00-15:30),
Sýslumanninum í Hafnarfirði (Bæjarhrauni 18, 220 Hafnarfirði. Afgreiðsla opin kl. 08:30-15:00) og
annars staðar á landinu á
skrifstofu viðkomandi sýslumanns

Hvað kostar ökunámið?
Það má gera ráð fyrir að kostnaður við ökunámið verði um 200 - 220 þúsund krónur. Þá er meðtalið námskeið í ökuskóla, verklegir kennslutímar, kennslubók, verkefni, myndir, próf- og skírteinisgjöld. En einstaklingar eru misjafnir og þurfa því á mismörgum ökutímum að halda og getur verðið því verið breytilegt. Ökunám með leiðbeinandaþjálfun kostar svipað en getur verið ódýrari kostur fyrir þann sem hefði annars þurft á mjög mörgum ökutímum að halda hjá ökukennara.

Hvað með fötlun eða lestrarörðugleika?
Ef fatlaðir hafa næga hreyfigetu til að þeir geti stjórnað af öryggi bíl með hjálpartækjum þá er þeim mögulegt að öðlast ökuréttindi. Slíkt er þó háð mati læknis og annarra sem athuga hvernig hjálpartæki vinna í stjórn bílsins. Dæmi um lestrarörðugleika er lesblinda (dyslexía), torlæsi, ólæsi eða tungumálaerfiðleikar. Þeir sem eiga í slíkum vandamálum fá aðstoð við lestur í skriflegum prófum.

Hvernig fer ökuprófið fram?
Ökuprófið samanstendur af krossaprófi, munnlegu prófi og akstursprófi. Krossaprófið er tekið í hópprófi og er svarað á sérstök svarblöð. Spurt er um efni sem þú hefur lært í ökuskólanum og hjá kennaranum en niðurstöður úr því prófi færð þú strax í próflok. Í munnlega prófinu sem tekið er í bílnum áður en farið er í aksturinn er spurt um ýmislegt sem snertir bílinn sjálfan eins og gaumljós, stjórn- og öryggistæki og hluti sem tengjast viðhaldi bílsins. Í akstursprófinu er ekið um ákveðnar prófleiðir og prófdómari skráir niður plúsa og mínusa og reiknar síðan í lokin stig próftakans. Ef heildarstigatala fer undir 80 hefur próftaki ekki staðist prófið.

Hvar sæki ég um ökuskírteini / ökupróf?
Á Höfuðborgarsvæðinu er sótt um ökuskírteini hjá:

Sýslumanninum í Kópavogi (Dalvegi 18, 201 Kópavogi. Afgreiðsla opin kl. 09:00-15:30),
Sýslumanninum í Hafnarfirði (Bæjarhrauni 18, 220 Hafnarfirði. Afgreiðsla opin kl. 08:30-15:00) og
annars staðar á landinu á
skrifstofu viðkomandi sýslumanns
Þegar umsókn um ökuskírteini hefur verið samþykkt af sýslumanni er gefin út próftökuheimild. Þegar próftökuheimild er komin til prófunaraðila og áskildu ökunámi er lokið með fullnægjandi árangri er hægt að panta tíma í ökupróf í samáði við ökukennara. Próf er pantað hjá
Frumherja hf. sem annast framkvæmd ökuprófa samkvæmt samningi við Umferðarstofu.

Hvað felst í almennum ökuréttindum?
Eftir að hafa staðist prófið fær ökumaðurinn ökuskírteini útgefið. Almenn ökuréttindi gefa rétt til að aka fólks- eða sendibifreið sem er ekki þyngri en 3.500 kg og með sæti fyrir mest 8 farþega auk ökumanns. Bifreiðin má vera með tengdan eftirvagn eða tengitæki sem er 750 kg eða minna að leyfðri heildarþyngd, eða sem er meiri en 750 kg að leyfðri heildarþyngd, en þá má leyfð heildarþyngd beggja ökutækja ekki vera meiri en 3.500 kg samtals. Ennfremur bifhjóli á þremur eða fleiri hjólum. Einnig mátt þú aka torfærutæki t.d. vélsleða, dráttarvél, þrí- og fjórhjóli og léttu bifhjóli. Einnig máttu aka vinnuvél í umferð en þó ekki vinna á hana, til þess þarf vinnuvélaréttindi.

Við hvetjum þig til að kynna þér hvernig best er að stunda ökunámið. Ungir ökumenn eru í meiri hættu í umferðinni en aðrir vegfarendur en með árangursríku ökunámi er unnt að draga úr þeirri hættu. Gott ökunám þar sem ökukennari, ökuskóli, foreldrar, systkini og aðrir velunnarar stilla saman strengi sína eru ódýrasta fjárfestingin í umferðaröryggi sem völ er á. Þér er alltaf velkomið að hafa samband við okkur til að fá upplýsingar um ökukennslu, ökupróf og allt það sem stuðlar að öruggum akstri.

Ökuskólinn.
Ökuskólinn er hluti ökunámsins og er þar um að ræða 24 kennslustunda nám sem skiptist í tvo megin hluta sem eru kallaðir Ö1 og Ö2. Hvor hluti er12 kennslustunir sem almennt ek kennt á kvöldin á suðurnesjum. Ö1 verður að taka áður en  æfingaakstur er hafinn. Ö2 er tekinn áður en skriflega prófið er þreytt. Ö3 er forvarnarskóli og þar er lögð áhersla á hálkuviðbrögð og almennt um viðhorf og hættur í akstri.


Knúið áfram af 123.is